Hvað má eiginlega borða?

apríl 14, 2012 § Færðu inn athugasemd

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera löt í páskafríinu og gefa heilsuáróðrinum frí. Mér datt líka í hug að það gæti stangast á við páskavenjur fólks að fara út í einhvern hollustupakka. Páskavenjurnar verandi þær að innbyrða u.þ.b hálft kíló af sælgæti á einum eða tveimur dögum. Aðallega var ég bara löt samt.

Ég fann mér fínan staðgengil páskaeggs. Fyrirtækið Organic.is framleiðir nokkrar gerðir hráfæðisnammis, m.a. Hnetufreistingu og Kókosfreistingu. Allt lífrænt og hrátt og gott. Hnetufreistingin smakkast eins og Snickers og Kókosfreistingin eins og Bounty. Nema að þær eru hollar á bragðið, á einhvern skringilegan hátt. Alls ekkert að því. Þær fást í allskonar búðum, Heilsuhúsunum, Lifandi Markaði, Hagkaupum, Nóatúni, Kosti, Melabúðinni, og ég fann mér meira að segja eina í Nettó á Egilsstöðum. Það var mjög ánægjulegt. Ég allavega mæli með þeim. Ég borða reyndar bara Kókosfreistinguna, en hún seðjar vel minni síminnkandi sætindaþörf.

En að efninu. Ragnar Logi vinur minn var forvitinn að fá að vita hvað það er sem ég borða eiginlega. Ég áttaði mig þá á því að ég hef bara talað um allt það sem ég borða ekki. Matarræðið mitt er ansi stíft, en flesta daga get ég ekki kvartað. Ef það er áhugi á að fara út í eitthvað svipað því sem ég er að gera þá er aðalundirstaða fæðu minnar grænmeti. Ég borða t.d fáránlega mikið af ýmis konar salati. Það var ekki fyrr en mamma hafði orð á því að ég áttaði mig á því hversu stórir skammtarnir eru orðnir. Ástæða þess að hún minntist á það var að ég torgaði jafn miklu magni af salati í einni máltíð og nægir vanalega okkar fimm manna fjölskyldu.

Það er hægt að gera svo mismunandi salöt. Maður bara fattar ekki hvað það er margt í boði. T.d bara með spínat, klettasalat, lambhaga, salatblöndu eða kínakál í grunninn. Síðan bæta við eftir smekk tómötum, gúrku, kúrbít, radísum, paprikum, rauðlauk, vorlauk, sellerí, epli, mangó, vínberjum og/eða avócado. Eða einhverju öðru. Þetta er allt gott. Að skola salatið vel gerir það enn betra, setja smá ólífuolíu yfir, og eins mikið og mann lystir af hnetum og fræjum.

Síðan eru það baunirnar. Ég veit ekki hvort það er séríslenskt fyrirbæri að finnast þurfa að vera kjöt í máltíðum, að annars sé bara verið að borða meðlæti með meira meðlæti. Allavega þá fer ekki mikið fyrir baunum. En þær eru samt þarna, og þær eru góðar líka. Það er fínt að byrja á því að kaupa sér niðursoðnar baunir, þá ekki þessar í tómatsósunni heldur kjúklingabaunir, smjörbaunir, nýrnabaunir o.sfrv. Þannig fæst í heilsubúðum, og örugglega í Hagkaup og fleiri búðum líka. Þá er líka hægt að prófa að kaupa tilbúin buff ef einhverjar efasemdir vakna um ágæti bauna.

Gott dæmi um ágæti þeirra er hversu gott það er að bæta baunum við grænmetissúpur. Það er nefnilega mjög auðvelt að gera súpur frá grunni. Ég hélt alltaf að það væri argasta bras, en það var svo bara misskilningur.

Þegar maður á slatta af grænmeti sem er stutt í að verði slappt og ógirnilegt er tilvalið að skella því niðurskornu í pott, með svona lítra af vatni, smakkað til með grænmetiskrafti (sem fylgir hollustunnar kúnstar reglum, þ.e án gers og MSG) salti og pipar, og fleiri kryddum ef lyst er á, og bæta svo við linsubaunum. Það gerir súpuna sætari, saðsamari og skemmtilegri. Svo er auðvitað hægt að gera hana flóknari og betri, en í hallæri er þetta ljómandi fínt. Ég set nákvæmari uppskrift inn á betrumbætta tengilinn hérna til hliðar merktan ‘Uppskriftir’.

Kjötmetið sem ég borða er aðallega kjúklingur, egg og lax. Stundum lambakjötið að heiman og einstaka sinnum nautakjöt. Í seinni tíð hefur kjötneyslan minnkað til muna. Maginn á auðveldara með að melta og vinna úr grænmetinu sem ég borða, svo ósjálfrátt borða ég minna af kjöti.

Ofan á allt annað er ég á glútenlausu fæði líka, svo brauðið sem ég borða er allt úr mjöli og bókhveiti. En hollu kornvörurnar eru samt ótrúlega margar. Speltbrauð, hrískökur, hrökkkex, speltpasta, hýðishrísgrjón svo dæmi séu tekin. Þar eins og annars staðar, og kannski enn fremur, er þó mikilvægt að kíkja á innihaldslýsingar svo maður sé örugglega að kaupa eitthvað sem er hollt.

Það sem gerir mest fyrir matinn finnst mér alltaf vera dressingarnar og sósurnar. Hrískaka er t.d ekkert sérstök ein sér. En hrískaka með tómatapestó og kotasælu er virkilega góð.

Dressingarnar eru ekkert flóknar heldur, en krefjast samt flestar matvinnsluvélar eða töfrasprota. T.d er góð uppskrift að hvítlauksdressingu á umbúðunum á grískri jógúrt. Grísk jógúrt, slatti af gúrku, slatti af hvítlauk, oreganó, sítrónusafi, salt og pipar. Það er snilld að gera mikið í einu, og eiga í ísskápnum og frystinum líka. Svo bara að vafra um uppskriftarsíður og finna dressingar með uppáhaldshráefninu, hvort sem það er paprika, tómatur, basil, hvítlaukur eða eitthvað annað.

Pestó er mér mjög mikilvægt. Ég geri reglulega sólþurrkað tómatapestó og basil- og klettasalatspestó, sem virkar með öllu leyfilegu brauðmeti. Vegna þess að það er nauðsynlegt að hafa eitthvað að nasla í á milli mála, og að það millimál sé gott á bragðið – ef það reynist erfitt að sleppa óhollustunni og skipta yfir í grænmeti, þá er pestó samt aðallega maukað grænmeti með olíu, sem smakkast vel. Ég ætla að lauma inn einni uppskrift úr Hollusturéttir Hagkaupa, að tveimur mismunandi pestóum sem eru algjört nammi.

Þá er hér um bil upptalið það sem ég borða. Fyrir utan hreina jógúrt, kotasælu og spírur. Auk þess ávexti, sem ég borða reyndar af skornum skammti núna því sveppasýkingin finnur sér því miður jarðveg í ávaxtasykri líka. Ég hlakka mest til að geta borðað eins mikið og ég vil af ávöxtum, þegar þetta prógramm mitt er búið (eftir fjóra og hálfa viku. Vúh!). Þess má geta að það eru til fleiri ávextir en epli og appelsínur. Ef ske kynni að það gleymist stundum. Til að sannreyna það er sniðugt að fara í Hagkaup og missa sig örlítið í kaupum á skrítnum ávöxtum. Það er skemmtilegt.

Svo drekk ég bara vatn. Mikið af því. Allan daginn. Og grænmetissafa og stöku ávaxtasafa sem ég geri sjálf í safapressu, og síðan te.

Ég skil vel að þessi, að því er virðist, stutti listi veki aftur upp spurninguna sem ég er búin að reyna að svara: Hvað má eiginlega borða? Af því þetta lítur kannski ekki út fyrir að vera mikið sem ég borða. En um leið og maður fer út í þetta fæði áttar maður sig á því að þetta nægir alveg, og vel það. Annars væri ég líklega ekki búin að endast allan þennan tíma.

Mikilvægur punktur er svo hvar maður verslar. Þó þessar heilsubúðir allar séu frábærar og þjónustan góð, þá eru þær líka stundum fáránlega dýrar. Svo, þó maður verði rosalega spenntur og ákveði einn daginn að fara að kaupa allskonar hollt, þá alls ekki gera öll innkaupin í heilsubúð. Ég hef þá reglu að ég sest niður einu sinni í viku og fer yfir þá rétti sem ég ætla að elda fyrir vikuna. Það er mjög fínt að gera það alltaf sama vikudaginn, ef það er hægt. Að renna yfir það sem er til í ísskápnum, og hvað vantar. Fara svo fyrst í Bónus eða sambærilega lágvöruverslun og gera öll möguleg innkaup þar. Fara því næst í búð með aðeins meira úrvali, eins og t.d Hagkaup eða Nóatún. Enda svo á að kaupa í heilsubúð það sem fæst ekki annars staðar.

Hljómar kannski eins og pínu vesen, en á hjóli, með bakpoka og fína tónlist í eyrunum er þetta alveg ágætt.

Svo er ýmislegt í þessu sem er aðeins flóknara, t.d hvað varðar samsetningu fæðutegunda, að haga sér í takt við líkamsklukkuna og rótera matarræðinu vel. Ég fer nánar út í það allt síðar.

Ef það vakna einhverjar spurningar eða vangaveltur má endilega senda mér hérna í ummæladálkinn, eða á facebook. Auk þess skrifa ég bara um það sem fólk hefur áhuga á að vita, svo það má alveg láta mig vita um svoleiðis. Næst ætla ég að fara út í smá sveppasýkingarhluti, einkenni og aðeins um þetta prógram mitt.

Það eru núna komnar fjórar uppskriftir inn á tengilinn vinstra megin. Go nuts! 🙂

Og Ragnar, núna veistu vonandi hvað ég borða!

Guðrún V.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

What’s this?

You are currently reading Hvað má eiginlega borða? at Allskonar Hollt.

meta

%d bloggurum líkar þetta: