Hvar og hvernig er best að byrja

apríl 2, 2012 § 6 athugasemdir

Fyrst langar mig að þakka fyrir allar góðu viðtökurnar. Þær gleðja mig ótrúlega mikið og hvetja áfram. En nóg um það. Ég vissi í raun ekki hvar ég ætti að byrja með fyrstu færslunni. Um leið og ég hóf skrifin langaði mig að koma öllum pælingunum og upplýsingunum frá mér. En ég áttaði mig fljótlega á því að það yrði tímafrekt bæði fyrir mig og lesandann. Svo ég ákvað að slappa aðeins af. Og ætla byrja á byrjuninni. Sem er einmitt hvar og hvernig er best að byrja.

Til að klára það leiðinlega fyrst, þá er þetta allt sem ég hef tekið úr matarræðinu:

Hvítan sykur og mat sem inniheldur sykur og sýróp

Hvítt hveiti og unnar kornvörur, t.d hvítt pasta og hrísgrjón

Allt brauðmeti sem inniheldur ger

Allar mjólkurvörur, fyrir utan kotasælu og hreina lífræna jógúrt

Allir áfengir drykkir

Allt kaffi

Allur ávaxtasafi og niðursoðnir ávextir

Allar unnar kjötvörur

Allur gervisykraður matur

Þurrkaðir ávextir

Allar vörur unnar úr vínediki

Allir sveppir og sojasósur

Þess má geta að ástæðan fyrir því að ég tók síðustu þrjú atriðin út úr matarræðinu er sú að þau virka illa á sveppasýktan maga. Annars er ekki beint ástæða til að taka t.d út þurrkaða ávexti og sveppi.

Að sjálfsögðu er svo ekki nauðsynlegt að ganga í hinar róttækustu aðgerðir og hætta skyndilega að borða allt ofantalið. Það mikilvæga er að finna sinn eigin hraða og tileinka sér það hugarfar að það sé val en ekki neyð sem fái mann til að breyta um matarræði.

Að verða pirraður á settum markmiðum, upplifa sig sem einhvers konar píslavott aðstæðna þegar hlutirnir ganga ekki upp og ákveða að halda í neikvætt viðhorf hefur það eitt í för með sér að maður verður þreyttur á sjálfum sér. Sem er bara kjánalegt, því það er enginn annar að fara að vinna þessa vinnu. Eina lausnin er því sú að hætta að væla og taka ábyrgð á sjálfum sér.

Sé um sveppasýkingu að ræða er vissulega hollast að spýta í lófana og skera hratt en örugglega niður úr þeim fæðuflokkum sem næra sveppinn. Til að fara ekki of djúpt í þá sálmana ætla ég að mæla með bókinni Candida sveppasýking – einkenni og lyfjalaus meðferð, eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu G. Bergmann, en ég tók þennan lista nánast beint upp úr þeirri bók. Það er mjög gott að byrja að lesa hana til að skilja nákvæmlega hvað er á seyði í líkamanum. Þó ég hefði bara gaman að því að fara út í það, þá koma sérfræðingarnir þessu mun betur frá sér en mér tækist nokkurn tímann. Ég fer svo betur út í mál varðandi sveppasýkingu í komandi færslum.

En svo ég mjaki mér að kjarna málsins – hvar og hvernig er best að byrja.

Til dæmis er sniðugt að byrja á einhverju sem er tiltölulega auðvelt. Að ganga inn í Bónus full/ur sjálfsaga og staldra lengur en vanalega við í grænmetis – og ávaxtakælinum. Reyna að auka alltaf magn grænmetis og ávaxta í innkaupakerrunni og sleppa einhverju öðru. Kaupa t.d vínberjaklasa og mangó, og sniðganga snakk- og nammihillurnar á leiðinni að kassanum. Það er ekki mjög erfitt. Til að byrja með tók ég mér krók svo ég sæi ekki einu sinni snakk eða nammi. Núna er mér oftast alveg sama um þetta gúmmelaði. Stundum er samt gaman að labba framhjá til að finna lyktina af súkkulaði. Góða lyktin af mat sem maður borðar ekki er nefnilega furðulega seðjandi ein og sér.

Hafi maður tíma aflögu, að venja sig á að lesa innihaldslýsingar. Það líður stuttur tími þar til maður kemst að því að það er viðbættur sykur í nánast öllu. Það verður hálffyndið meira að segja. Fyndið með smá biturð í.

Það er gott að t.d skipta yfir í kaldpressaða jómfrúarólífuolíu og kókosolíu, og venja sig á að kaupa reglulega ný krydd. Það er ótrúlegt hvað góð krydd geta gert mikið fyrir mat.

Svo eru fæðutegundir sem gleymast stundum, eins og hnetur og fræ. Algjört ljúfmeti, sem er sniðugt sem snakk og gott að bæta í léttar máltíðir.

Að spandera í matvinnsluvél get ég 100% mælt með. Það er vel hægt að finna þær á innan við 10.000 kr. Þær auðvelda eldamennskuna svo mikið og flýta fyrir. Auk þess er notast við matvinnsluvél í stórum hluta uppskrifta t.d í Heilsuréttir Hagkaupa eftir Sollu í Grænum Kosti. Sú bók er skyldukaup ætli maður út í hollustuna. Uppskriftir inni á síðunum sem ég setti hér til hliðar eru líka mikil snilld.

Að hætta hægt og rólega að borða allan þennan mat sem belgir mann út er eitt ansi mikilvægt atriði. Hvítt brauð, bakkelsi, brauðostur, sætar mjólkurvörur, hvítt pasta, feitar sósur og svo framvegis. Ég held að flestir séu ágætlega meðvitaðir um hvers kyns mat ég á við. Snilldin við að hætta að borða þetta er sú að það líður ekki á löngu fyrr en maður saknar alls þessa ekki neitt. Auk þess þá held ég að flestir, kvenkyns lesendur í það minnsta, kannist við að vera sáttir með magamálið á morgnanna og vonsviknir á kvöldin. Sú tilfinning hverfur þegar maður hættir að gúffa í sig mat sem sest að á maganum.

Að eyða eins miklum tíma og maður getur í að elda heima. Hollar grænmetisdressingar, gróft brauð, baunaréttir, súpur og grænmetislasagne eru dæmi um mat sem er æðislegt að eiga í frystinum. Þó maður sé nýliði í eldhúsinu þá er hráefnið svo gott að það er erfitt að klúðra eldamennsku og bakstri. Það gerist samt alveg. En það er allt í lagi, af því þannig lærir maður bara.

Þetta er kostnaðarsamt og tímafrekt til að byrja með. Það tekur tíma að skipta óhollu hráefnunum út, og oft eru þau hollu dýrari líka. Það góða er þó að þetta eru skynsamlegar fjárfestingar og þegar maður kemst upp á lagið með að elda hollan mat sér maður ekki eftir peningnum.

Og svo ég nefni það nú aftur – að finna sinn eigin hraða. Ég velti mér strax ofan í djúpu laugina með þetta allt saman og það tók satt best að segja sinn toll. Það komu tímabil þar sem ég var örg og pirruð á eigin þekkinga – og skilningsleysi, og fannst ég standa ein í algjöru basli.

Það góða við að fara þá leið er þó það að sjálfsaginn fær allt í einu eitthvað að gera. Með því að leyfa sér ekkert af ofantöldum lista gerir maður sjálfum sér ljóst að þetta er einfaldlega ekki í boði lengur. Það er ekki í boði að svindla smá, fá sér einn bita af köku eða fara á pínu fyllerí.

Ég veit þó ekki hvernig sú leið virkar fyrir þá sem eiga ekki í hættu að verða veikir lendi þeir útaf sporinu. Ef til vill er það bara meiri áskorun. Spennandi! Ég get allavega fullyrt það að gangi maður ekki dálítið langt með þetta strax frá byrjun er miklu meiri hætta á því að missa sjónar á markmiðunum, hver svo sem þau eru.

Það besta við þetta allt saman er þó – og þetta gerist ekki alveg strax – að maður lærir að hlusta á líkamann sinn. Það hljómar kannski skringilega, og mér er alveg sama, en það er mjög skemmtilegt að hlusta á líkamann sinn. Hann nefnilega er frekar sniðugur, og þakkar manni kærlega fyrir það þegar maður setur holla og góða hluti ofan í sig. Munurinn á því hvernig mér líður eftir að ég borða hráfæðispizzu á Gló og eftir að ég borða hamborgara á Fabrikkunni er svo mikill að ég veit ekki almennilega hvernig ég á að koma orðum að því. Án þess að ætla mér út í einhverja matardramatík, þá er það svo mikils virði að líða vel eftir hverja einustu máltíð, orkumeiri og sátt með það sem ég borðaði. Ólíkt því sem áður var, þar sem ég varð þung í maganum, fékk þreytuhausverk og varð ævinlega kalt.

Alveg eins og það er talað um matarfíkn í óhollan mat, verður maður háður þessari líkamlegu vellíðan sem fylgir hollu matarræði. Munurinn er bara að sú seinni er góð fíkn. Sem er alveg skrítin fullyrðing.

En allavega. Vonandi virkar þessi fyrsti heilsuáróður sem hvatning. Um leið og ég áttaði mig á snilldinni sem hollustan er leið mér eins og ég lægi ein á einhverjum fjársjóði. Og hún er alveg fjársjóður. Hún þarfnast bara dálítillar vinnu fyrst, sem verður fljótlega að vana og verðlaunin eru fáránleg vellíðan. Það er alls ekki slæmt.

Guðrún V.

Auglýsingar

§ 6 Responses to Hvar og hvernig er best að byrja

 • Pálína skrifar:

  Ég er bara sammála öllu og öll hvött og til í að demba mér í eldhúsið eftir þessa lesningu. Geturðu deilt einhverjum góðum uppskriftum af ofantöldu (grænmetisdressingar, gróft brauð, baunaréttir, súpur og grænmetislasagne) ?

  • gudrunveturlida skrifar:

   Það er frábært að heyra 🙂
   Ég setti inn nokkra linka, undir ‘Uppskriftir og fróðleikur’. Tvær fyrstu síðurnar eru ótrúlega góðar. Þessar tvær konur eru meistarar í sínum fögum. Ég elda rosalega mikið eftir Sollu í Grænum Kosti, og ég kann ekki við að setja uppskriftir beint upp úr bókinni hennar á netið. Ég á líka eftir að setja inn eigin uppskriftir, og uppskriftir sem ég hef breytt lítillega. Fer að vinna í því á næstu dögum 🙂

 • ólafur Þröstur skrifar:

  frábært gæskan mín Guðrún. Stið þig heilshugar í þessu. Þú er mér þegar góð fyrirmynd. Þetta er næsta stóra verkefnið mitt, en ég er ekki alveg tilbúin enþá þar sem ég er enn að vinna í góðum verkefnum fyrir líf mitt og hef ekki orku í fleiri verk í bili. En eins og þú nefndir, Góðir hlutir gerast hægt. Gangi þér vel heillin

 • Marta Mús skrifar:

  Guðrún ég er svo ánægð með þig og ég bíð spennt eftir næsta bloggi. Kveðja MARTA 4.H

 • almarunvignisdottir skrifar:

  Nýja uppáhalds bloggið mitt, alveg klárlega. Þetta eru akkúrat upplýsingarnar sem ég þarf á að halda núna í lífinu mínu. Eins og þú segir þá hefur matarræði nánast allt um það að segja hvernig manni líður í kroppinum, núna skil ég líka afhverju ég hreinlega þekkti þig ekki þarna um daginn þegar ég hitti þig á laundromat. Holla Guðrún lítur alveg fáránlega vel út!

  Hlakka til næstu færslu 😉 og já uppskriftir væru algjör snilld!

 • gudrunveturlida skrifar:

  Takk fyrir bæði tvö! Gaman að heyra. Ég fer að vinda mér í næsta blogg í kvöld 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

What’s this?

You are currently reading Hvar og hvernig er best að byrja at Allskonar Hollt.

meta

%d bloggurum líkar þetta: