Candida slagurinn

apríl 1, 2012 § Ein athugasemd

Mér hefur lengi ekki fundist ég vera týpan sem bloggar . Ekki síðan ég var 17 ára og hafði marga ljóðræna hluti að segja. Þá var bloggsíða fín til síns brúks. Í þetta skiptið er ástæðan sú að ég hef margar upplýsingar sem ég held að gætu verið öðrum til góðs. Og ég hefði gaman af því að aðrir nýttu sér.

Það er talað um að 75% vestrænna kvenna fái einhvern tímann sveppasýkingu. Það kemur mér ekki á óvart, þar sem í hvert sinn sem ég tala við stelpu eða konu um það sem ég er að gera þá eru viðbrögðin á þá leið að hún hafi sjálf fengið eða þekki einhverja sem hefur fengið sveppasýkingu, hvort svo sem það hafi verið í skamman tíma, eða þróast út í króníska sýkingu.

Viðbrögðin sem ég fæ frá karlmönnum þegar ég svara því heiðarlega hvers vegna ég drekki ekki, afþakki góðgæti sem mér er boðið eða borði svona óhóflega hollan mat, eru stundum svipuð en oftar kemur smá fát á þá. Sem er fyndið. Vegna þess að, ólíkt því sem sumir halda, er sveppasýking ekki kynsjúkdómur þó hún geti smitast við kynlíf og það ætti ekki að vera vandræðalegt að ræða hana vegna þess að hún er svo ótrúlega algeng.

Stundum er ég ekki einu sinni spurð. Ég segi frá þessu í óspurðum fréttum. Fólk sem umgengst mig mikið verður því að umbera það að hlusta á vangaveltur um mat, grænmetissafa, vítamín og ástandið mitt hverju sinni. Ég vil þess vegna nota þessi skrif hér til að þakka vinum mínum, fjölskyldu og samstarfsfólki fyrir að nenna að hlusta á heilsuþvaðrið í mér.

En allavega, sveppasýking. Hún er í rauninni bein afleiðing kæruleysis í okkur nautnaseggjum Vesturlanda. Kæruleysis og vanvirðingar við líkama okkar. Flest okkar fara nefnilega betur með hlutina okkar en okkur sjálf, sem er fáránlegt hvernig sem á það er litið vegna þess að við skiptum hlutunum okkar út hægri vinstri en sitjum föst með þennan blessaða kropp okkar þar til við deyjum.

Við hámum í okkur óhollan mat, förum að sofa um miðja nótt, höldum okkur gangandi á koffeini og sykri og drekkum mun meira magn áfengis á góðu fyllerí en ráðlagðan dagskammt af vatni. Málið er samt bara að hamborgarar og kaffi er gott. Sömuleiðis bjór. Og það er eitthvað svo gaman að vaka frameftir, þó maður sé ekki að gera neitt sérstakt.

Að lifa hratt og deyja fallega er viðhorf sem ég ber virðingu fyrir – og það eitt og sér er tilefni til pælingar á nýju wordskjali. En það sem ég vil meina í þessu sambandi hér er að gera það sem maður vill gera, óháð því hvort það er hollt fyrir mann eða ekki. Að leyfa sér og njóta þess.

Þegar líkaminn svo byrjar að mótmæla líferninu hægt og rólega er það fyrsta sem maður gerir ævinlega að stinga puttunum í eyrun og halda áfram uppteknum hætti. Vegna þess að það er auðvelt. Og maður hefur um nóg annað að hugsa yfirleitt.

Líkaminn veit samt alveg hvað er gott fyrir hann þó við reynum að venja hann við eitthvað annað. Í mínu tilfelli fór ég ekki að hlusta á hann fyrr en ég var komin með króníska sveppasýkingu og ómögulegt ónæmiskerfi, sem olli því að ég gat ekki mætt í vinnuna þegar ástandið var verst, eða gert nokkurn skapaðan hlut annan en að liggja bara og bölsótast yfir öllu saman, algjörlega fattlaus á að ég gæti sjálfri mér um kennt. Eftir nokkur ár af reglulegu bjórþambi, því að borða bara það sem var í ísskápnum þegar ég var svöng og sofa að meðaltali fimm klukkutíma á sólarhring leið mér orðið ekkert svakalega vel.    Svo ég fór á Google. Þar stóð ýmislegt sem mér fannst ekki skemmtilegt. T.d það að orsök sveppasýkingar sé fyrst og fremst það sem maður setur ofan í sig, þar í broddi fylkingar: hvítt hveiti, sykur, mjólkurvörur og áfengi. Eftir á að hyggja er þetta einungis rökrétt, en á þessum tíma voru þetta sjokkerandi upplýsingar. Ég ákvað að stinga puttunum bara aftur í eyrun. Þetta var of mikið bras.

Ótrúlegt en satt! Ekkert batnaði. Ég tók sterkustu lyfin sem hægt er að fá við sveppasýkingu, en hún sá við þeim og hélt áfram að lifa sínu notalega lífi í líkamanum mínum.Þá var ekkert annað eftir en að kveðja þetta líferni mitt og fara að kynna mér alls konar heilsusamlega hluti. Hluti sem ég hafði alltaf haft örlitla fordóma fyrir. Eða meira kannski eitthvert ergelsi yfir því að aðrir skyldu nenna þessu en ekki ég.

Núna eru liðnir u.þ.b fjórir mánuðir siðan ég byrjaði að taka á mínum málum og gjörbreyta matarræðinu. Fyrir utan tvo daga í Danmörku þar sem ég var með bjór í sjónlínu nær allan tímann og endaði á fylleríi (það er svo margt sem má gera, einhverra hluta vegna, þegar maður er ekki heima hjá sér) – þá hef ég ekki borðað hvítt hveiti, sykur, ger, mjólkurvörur, unnar eða gerjaðar matvörur né drukkið áfengi eða kaffi síðan um áramót.

Eðlilega gerist það ekki nema að kynna sér alls konar hluti fyrst, og lesa sér til. Gefa sér tíma til að melta allar þessar nýju upplýsingar og læra að nota þær.

Það er svo ótrúlega margt sem þarf að huga að þegar kemur að þessari lífstílsbreytingu og hún er alls ekki auðveld. En það er hægt að venjast svo mörgu. T.d því að vera heima og elda fyrir vikuna á laugardagskvöldi í staðinn fyrir að fara út á lífið eða að mæta með grænmeti í nesti í kökuboð. Það sem verra er, þá er líka hægt að venjast því að líða illa. Að taka sterk sýklalyf mánaðarlega til að bæla niður sýkingu sem kemur bara aftur seinna, að ná aldrei að sofa vel og að verða alltaf lasinn þegar flensan gengur yfir. Svona mætti halda endalaust áfram.

Ég geri mér grein fyrir því að viðfangsefni þessarar færslu er ekki spennandi fyrir alla. Enda er það alls ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að aðstoða þá sem eiga við þetta sama vandamál að etja en vita ekki hvernig eða hvar á að byrja. Líka, óháð sveppasýkingu, til þeirra sem hafa einfaldlega áhuga á hollara líferni og/eða að grennast. Því það er ekki nauðsynlegt að vera veikur til að fræðast um hollustu, þó það hafi þurft fyrir mig.

Ég hafði hugsað mér að setja hérna inn færslur um alls konar hluti, uppskriftir sem ég hef sankað að mér, upplýsingar um samsetningu máltíða, safakúra, ráðlegt svefmynstur og alls konar. Og reyna að einhverju leyti að vera til staðar ef fólk missir móðinn, þó það sé ekki nema í formi vikulegrar bloggfærslu. Af því ég veit það sjálf að það munar svo miklu að vita af fólki í kringum mann sem er að gera svipaða hluti.

Nú er ég samt enginn snillingur í þessu fagi. Það er ótrúlega margt sem ég veit ekki og kann ekki. En ef það er áhugi til staðar hjá einhverjum, ykkur facebook vinum mínum og fleirum, þá held ég glöð áfram með þessa síðu hér.

Og svo ég gleymi ekki að nefna það, þá hefur þessi breyting gert það að verkum að mér líður betur í líkamanum en nokkurn tímann áður. Komandi frá algjörum nautnasegg hlýtur það að segja eitthvað til um hvað það er sniðugt að vera heilsusamlegur.

Guðrún V.

Auglýsingar

§ One Response to Candida slagurinn

  • Pálína skrifar:

    Ég er líka með Candida og hef ekki borðað ger síðan 2009. Ég er sennilega ekki eins slæm af þessu og þú, allavega hef ég sloppið við að sniðganga hvítt hveiti en ég reyni að borða sem minnst af sætindum og svo er ég með mjólkuróþol(andi). Verður fróðlegt að fylgjast með þessu bloggi hjá þér!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

What’s this?

You are currently reading Candida slagurinn at Allskonar Hollt.

meta

%d bloggurum líkar þetta: