Hvað má eiginlega borða?

apríl 14, 2012 § Færðu inn athugasemd

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera löt í páskafríinu og gefa heilsuáróðrinum frí. Mér datt líka í hug að það gæti stangast á við páskavenjur fólks að fara út í einhvern hollustupakka. Páskavenjurnar verandi þær að innbyrða u.þ.b hálft kíló af sælgæti á einum eða tveimur dögum. Aðallega var ég bara löt samt.

Ég fann mér fínan staðgengil páskaeggs. Fyrirtækið Organic.is framleiðir nokkrar gerðir hráfæðisnammis, m.a. Hnetufreistingu og Kókosfreistingu. Allt lífrænt og hrátt og gott. Hnetufreistingin smakkast eins og Snickers og Kókosfreistingin eins og Bounty. Nema að þær eru hollar á bragðið, á einhvern skringilegan hátt. Alls ekkert að því. Þær fást í allskonar búðum, Heilsuhúsunum, Lifandi Markaði, Hagkaupum, Nóatúni, Kosti, Melabúðinni, og ég fann mér meira að segja eina í Nettó á Egilsstöðum. Það var mjög ánægjulegt. Ég allavega mæli með þeim. Ég borða reyndar bara Kókosfreistinguna, en hún seðjar vel minni síminnkandi sætindaþörf.

En að efninu. Ragnar Logi vinur minn var forvitinn að fá að vita hvað það er sem ég borða eiginlega. Ég áttaði mig þá á því að ég hef bara talað um allt það sem ég borða ekki. Matarræðið mitt er ansi stíft, en flesta daga get ég ekki kvartað. Ef það er áhugi á að fara út í eitthvað svipað því sem ég er að gera þá er aðalundirstaða fæðu minnar grænmeti. Ég borða t.d fáránlega mikið af ýmis konar salati. Það var ekki fyrr en mamma hafði orð á því að ég áttaði mig á því hversu stórir skammtarnir eru orðnir. Ástæða þess að hún minntist á það var að ég torgaði jafn miklu magni af salati í einni máltíð og nægir vanalega okkar fimm manna fjölskyldu.

Það er hægt að gera svo mismunandi salöt. Maður bara fattar ekki hvað það er margt í boði. T.d bara með spínat, klettasalat, lambhaga, salatblöndu eða kínakál í grunninn. Síðan bæta við eftir smekk tómötum, gúrku, kúrbít, radísum, paprikum, rauðlauk, vorlauk, sellerí, epli, mangó, vínberjum og/eða avócado. Eða einhverju öðru. Þetta er allt gott. Að skola salatið vel gerir það enn betra, setja smá ólífuolíu yfir, og eins mikið og mann lystir af hnetum og fræjum.

Síðan eru það baunirnar. Ég veit ekki hvort það er séríslenskt fyrirbæri að finnast þurfa að vera kjöt í máltíðum, að annars sé bara verið að borða meðlæti með meira meðlæti. Allavega þá fer ekki mikið fyrir baunum. En þær eru samt þarna, og þær eru góðar líka. Það er fínt að byrja á því að kaupa sér niðursoðnar baunir, þá ekki þessar í tómatsósunni heldur kjúklingabaunir, smjörbaunir, nýrnabaunir o.sfrv. Þannig fæst í heilsubúðum, og örugglega í Hagkaup og fleiri búðum líka. Þá er líka hægt að prófa að kaupa tilbúin buff ef einhverjar efasemdir vakna um ágæti bauna.

Gott dæmi um ágæti þeirra er hversu gott það er að bæta baunum við grænmetissúpur. Það er nefnilega mjög auðvelt að gera súpur frá grunni. Ég hélt alltaf að það væri argasta bras, en það var svo bara misskilningur.

Þegar maður á slatta af grænmeti sem er stutt í að verði slappt og ógirnilegt er tilvalið að skella því niðurskornu í pott, með svona lítra af vatni, smakkað til með grænmetiskrafti (sem fylgir hollustunnar kúnstar reglum, þ.e án gers og MSG) salti og pipar, og fleiri kryddum ef lyst er á, og bæta svo við linsubaunum. Það gerir súpuna sætari, saðsamari og skemmtilegri. Svo er auðvitað hægt að gera hana flóknari og betri, en í hallæri er þetta ljómandi fínt. Ég set nákvæmari uppskrift inn á betrumbætta tengilinn hérna til hliðar merktan ‘Uppskriftir’.

Kjötmetið sem ég borða er aðallega kjúklingur, egg og lax. Stundum lambakjötið að heiman og einstaka sinnum nautakjöt. Í seinni tíð hefur kjötneyslan minnkað til muna. Maginn á auðveldara með að melta og vinna úr grænmetinu sem ég borða, svo ósjálfrátt borða ég minna af kjöti.

Ofan á allt annað er ég á glútenlausu fæði líka, svo brauðið sem ég borða er allt úr mjöli og bókhveiti. En hollu kornvörurnar eru samt ótrúlega margar. Speltbrauð, hrískökur, hrökkkex, speltpasta, hýðishrísgrjón svo dæmi séu tekin. Þar eins og annars staðar, og kannski enn fremur, er þó mikilvægt að kíkja á innihaldslýsingar svo maður sé örugglega að kaupa eitthvað sem er hollt.

Það sem gerir mest fyrir matinn finnst mér alltaf vera dressingarnar og sósurnar. Hrískaka er t.d ekkert sérstök ein sér. En hrískaka með tómatapestó og kotasælu er virkilega góð.

Dressingarnar eru ekkert flóknar heldur, en krefjast samt flestar matvinnsluvélar eða töfrasprota. T.d er góð uppskrift að hvítlauksdressingu á umbúðunum á grískri jógúrt. Grísk jógúrt, slatti af gúrku, slatti af hvítlauk, oreganó, sítrónusafi, salt og pipar. Það er snilld að gera mikið í einu, og eiga í ísskápnum og frystinum líka. Svo bara að vafra um uppskriftarsíður og finna dressingar með uppáhaldshráefninu, hvort sem það er paprika, tómatur, basil, hvítlaukur eða eitthvað annað.

Pestó er mér mjög mikilvægt. Ég geri reglulega sólþurrkað tómatapestó og basil- og klettasalatspestó, sem virkar með öllu leyfilegu brauðmeti. Vegna þess að það er nauðsynlegt að hafa eitthvað að nasla í á milli mála, og að það millimál sé gott á bragðið – ef það reynist erfitt að sleppa óhollustunni og skipta yfir í grænmeti, þá er pestó samt aðallega maukað grænmeti með olíu, sem smakkast vel. Ég ætla að lauma inn einni uppskrift úr Hollusturéttir Hagkaupa, að tveimur mismunandi pestóum sem eru algjört nammi.

Þá er hér um bil upptalið það sem ég borða. Fyrir utan hreina jógúrt, kotasælu og spírur. Auk þess ávexti, sem ég borða reyndar af skornum skammti núna því sveppasýkingin finnur sér því miður jarðveg í ávaxtasykri líka. Ég hlakka mest til að geta borðað eins mikið og ég vil af ávöxtum, þegar þetta prógramm mitt er búið (eftir fjóra og hálfa viku. Vúh!). Þess má geta að það eru til fleiri ávextir en epli og appelsínur. Ef ske kynni að það gleymist stundum. Til að sannreyna það er sniðugt að fara í Hagkaup og missa sig örlítið í kaupum á skrítnum ávöxtum. Það er skemmtilegt.

Svo drekk ég bara vatn. Mikið af því. Allan daginn. Og grænmetissafa og stöku ávaxtasafa sem ég geri sjálf í safapressu, og síðan te.

Ég skil vel að þessi, að því er virðist, stutti listi veki aftur upp spurninguna sem ég er búin að reyna að svara: Hvað má eiginlega borða? Af því þetta lítur kannski ekki út fyrir að vera mikið sem ég borða. En um leið og maður fer út í þetta fæði áttar maður sig á því að þetta nægir alveg, og vel það. Annars væri ég líklega ekki búin að endast allan þennan tíma.

Mikilvægur punktur er svo hvar maður verslar. Þó þessar heilsubúðir allar séu frábærar og þjónustan góð, þá eru þær líka stundum fáránlega dýrar. Svo, þó maður verði rosalega spenntur og ákveði einn daginn að fara að kaupa allskonar hollt, þá alls ekki gera öll innkaupin í heilsubúð. Ég hef þá reglu að ég sest niður einu sinni í viku og fer yfir þá rétti sem ég ætla að elda fyrir vikuna. Það er mjög fínt að gera það alltaf sama vikudaginn, ef það er hægt. Að renna yfir það sem er til í ísskápnum, og hvað vantar. Fara svo fyrst í Bónus eða sambærilega lágvöruverslun og gera öll möguleg innkaup þar. Fara því næst í búð með aðeins meira úrvali, eins og t.d Hagkaup eða Nóatún. Enda svo á að kaupa í heilsubúð það sem fæst ekki annars staðar.

Hljómar kannski eins og pínu vesen, en á hjóli, með bakpoka og fína tónlist í eyrunum er þetta alveg ágætt.

Svo er ýmislegt í þessu sem er aðeins flóknara, t.d hvað varðar samsetningu fæðutegunda, að haga sér í takt við líkamsklukkuna og rótera matarræðinu vel. Ég fer nánar út í það allt síðar.

Ef það vakna einhverjar spurningar eða vangaveltur má endilega senda mér hérna í ummæladálkinn, eða á facebook. Auk þess skrifa ég bara um það sem fólk hefur áhuga á að vita, svo það má alveg láta mig vita um svoleiðis. Næst ætla ég að fara út í smá sveppasýkingarhluti, einkenni og aðeins um þetta prógram mitt.

Það eru núna komnar fjórar uppskriftir inn á tengilinn vinstra megin. Go nuts! 🙂

Og Ragnar, núna veistu vonandi hvað ég borða!

Guðrún V.

Auglýsingar

Hvar og hvernig er best að byrja

apríl 2, 2012 § 6 athugasemdir

Fyrst langar mig að þakka fyrir allar góðu viðtökurnar. Þær gleðja mig ótrúlega mikið og hvetja áfram. En nóg um það. Ég vissi í raun ekki hvar ég ætti að byrja með fyrstu færslunni. Um leið og ég hóf skrifin langaði mig að koma öllum pælingunum og upplýsingunum frá mér. En ég áttaði mig fljótlega á því að það yrði tímafrekt bæði fyrir mig og lesandann. Svo ég ákvað að slappa aðeins af. Og ætla byrja á byrjuninni. Sem er einmitt hvar og hvernig er best að byrja.

Til að klára það leiðinlega fyrst, þá er þetta allt sem ég hef tekið úr matarræðinu:

Hvítan sykur og mat sem inniheldur sykur og sýróp

Hvítt hveiti og unnar kornvörur, t.d hvítt pasta og hrísgrjón

Allt brauðmeti sem inniheldur ger

Allar mjólkurvörur, fyrir utan kotasælu og hreina lífræna jógúrt

Allir áfengir drykkir

Allt kaffi

Allur ávaxtasafi og niðursoðnir ávextir

Allar unnar kjötvörur

Allur gervisykraður matur

Þurrkaðir ávextir

Allar vörur unnar úr vínediki

Allir sveppir og sojasósur

Þess má geta að ástæðan fyrir því að ég tók síðustu þrjú atriðin út úr matarræðinu er sú að þau virka illa á sveppasýktan maga. Annars er ekki beint ástæða til að taka t.d út þurrkaða ávexti og sveppi.

Að sjálfsögðu er svo ekki nauðsynlegt að ganga í hinar róttækustu aðgerðir og hætta skyndilega að borða allt ofantalið. Það mikilvæga er að finna sinn eigin hraða og tileinka sér það hugarfar að það sé val en ekki neyð sem fái mann til að breyta um matarræði.

Að verða pirraður á settum markmiðum, upplifa sig sem einhvers konar píslavott aðstæðna þegar hlutirnir ganga ekki upp og ákveða að halda í neikvætt viðhorf hefur það eitt í för með sér að maður verður þreyttur á sjálfum sér. Sem er bara kjánalegt, því það er enginn annar að fara að vinna þessa vinnu. Eina lausnin er því sú að hætta að væla og taka ábyrgð á sjálfum sér.

Sé um sveppasýkingu að ræða er vissulega hollast að spýta í lófana og skera hratt en örugglega niður úr þeim fæðuflokkum sem næra sveppinn. Til að fara ekki of djúpt í þá sálmana ætla ég að mæla með bókinni Candida sveppasýking – einkenni og lyfjalaus meðferð, eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu G. Bergmann, en ég tók þennan lista nánast beint upp úr þeirri bók. Það er mjög gott að byrja að lesa hana til að skilja nákvæmlega hvað er á seyði í líkamanum. Þó ég hefði bara gaman að því að fara út í það, þá koma sérfræðingarnir þessu mun betur frá sér en mér tækist nokkurn tímann. Ég fer svo betur út í mál varðandi sveppasýkingu í komandi færslum.

En svo ég mjaki mér að kjarna málsins – hvar og hvernig er best að byrja.

Til dæmis er sniðugt að byrja á einhverju sem er tiltölulega auðvelt. Að ganga inn í Bónus full/ur sjálfsaga og staldra lengur en vanalega við í grænmetis – og ávaxtakælinum. Reyna að auka alltaf magn grænmetis og ávaxta í innkaupakerrunni og sleppa einhverju öðru. Kaupa t.d vínberjaklasa og mangó, og sniðganga snakk- og nammihillurnar á leiðinni að kassanum. Það er ekki mjög erfitt. Til að byrja með tók ég mér krók svo ég sæi ekki einu sinni snakk eða nammi. Núna er mér oftast alveg sama um þetta gúmmelaði. Stundum er samt gaman að labba framhjá til að finna lyktina af súkkulaði. Góða lyktin af mat sem maður borðar ekki er nefnilega furðulega seðjandi ein og sér.

Hafi maður tíma aflögu, að venja sig á að lesa innihaldslýsingar. Það líður stuttur tími þar til maður kemst að því að það er viðbættur sykur í nánast öllu. Það verður hálffyndið meira að segja. Fyndið með smá biturð í.

Það er gott að t.d skipta yfir í kaldpressaða jómfrúarólífuolíu og kókosolíu, og venja sig á að kaupa reglulega ný krydd. Það er ótrúlegt hvað góð krydd geta gert mikið fyrir mat.

Svo eru fæðutegundir sem gleymast stundum, eins og hnetur og fræ. Algjört ljúfmeti, sem er sniðugt sem snakk og gott að bæta í léttar máltíðir.

Að spandera í matvinnsluvél get ég 100% mælt með. Það er vel hægt að finna þær á innan við 10.000 kr. Þær auðvelda eldamennskuna svo mikið og flýta fyrir. Auk þess er notast við matvinnsluvél í stórum hluta uppskrifta t.d í Heilsuréttir Hagkaupa eftir Sollu í Grænum Kosti. Sú bók er skyldukaup ætli maður út í hollustuna. Uppskriftir inni á síðunum sem ég setti hér til hliðar eru líka mikil snilld.

Að hætta hægt og rólega að borða allan þennan mat sem belgir mann út er eitt ansi mikilvægt atriði. Hvítt brauð, bakkelsi, brauðostur, sætar mjólkurvörur, hvítt pasta, feitar sósur og svo framvegis. Ég held að flestir séu ágætlega meðvitaðir um hvers kyns mat ég á við. Snilldin við að hætta að borða þetta er sú að það líður ekki á löngu fyrr en maður saknar alls þessa ekki neitt. Auk þess þá held ég að flestir, kvenkyns lesendur í það minnsta, kannist við að vera sáttir með magamálið á morgnanna og vonsviknir á kvöldin. Sú tilfinning hverfur þegar maður hættir að gúffa í sig mat sem sest að á maganum.

Að eyða eins miklum tíma og maður getur í að elda heima. Hollar grænmetisdressingar, gróft brauð, baunaréttir, súpur og grænmetislasagne eru dæmi um mat sem er æðislegt að eiga í frystinum. Þó maður sé nýliði í eldhúsinu þá er hráefnið svo gott að það er erfitt að klúðra eldamennsku og bakstri. Það gerist samt alveg. En það er allt í lagi, af því þannig lærir maður bara.

Þetta er kostnaðarsamt og tímafrekt til að byrja með. Það tekur tíma að skipta óhollu hráefnunum út, og oft eru þau hollu dýrari líka. Það góða er þó að þetta eru skynsamlegar fjárfestingar og þegar maður kemst upp á lagið með að elda hollan mat sér maður ekki eftir peningnum.

Og svo ég nefni það nú aftur – að finna sinn eigin hraða. Ég velti mér strax ofan í djúpu laugina með þetta allt saman og það tók satt best að segja sinn toll. Það komu tímabil þar sem ég var örg og pirruð á eigin þekkinga – og skilningsleysi, og fannst ég standa ein í algjöru basli.

Það góða við að fara þá leið er þó það að sjálfsaginn fær allt í einu eitthvað að gera. Með því að leyfa sér ekkert af ofantöldum lista gerir maður sjálfum sér ljóst að þetta er einfaldlega ekki í boði lengur. Það er ekki í boði að svindla smá, fá sér einn bita af köku eða fara á pínu fyllerí.

Ég veit þó ekki hvernig sú leið virkar fyrir þá sem eiga ekki í hættu að verða veikir lendi þeir útaf sporinu. Ef til vill er það bara meiri áskorun. Spennandi! Ég get allavega fullyrt það að gangi maður ekki dálítið langt með þetta strax frá byrjun er miklu meiri hætta á því að missa sjónar á markmiðunum, hver svo sem þau eru.

Það besta við þetta allt saman er þó – og þetta gerist ekki alveg strax – að maður lærir að hlusta á líkamann sinn. Það hljómar kannski skringilega, og mér er alveg sama, en það er mjög skemmtilegt að hlusta á líkamann sinn. Hann nefnilega er frekar sniðugur, og þakkar manni kærlega fyrir það þegar maður setur holla og góða hluti ofan í sig. Munurinn á því hvernig mér líður eftir að ég borða hráfæðispizzu á Gló og eftir að ég borða hamborgara á Fabrikkunni er svo mikill að ég veit ekki almennilega hvernig ég á að koma orðum að því. Án þess að ætla mér út í einhverja matardramatík, þá er það svo mikils virði að líða vel eftir hverja einustu máltíð, orkumeiri og sátt með það sem ég borðaði. Ólíkt því sem áður var, þar sem ég varð þung í maganum, fékk þreytuhausverk og varð ævinlega kalt.

Alveg eins og það er talað um matarfíkn í óhollan mat, verður maður háður þessari líkamlegu vellíðan sem fylgir hollu matarræði. Munurinn er bara að sú seinni er góð fíkn. Sem er alveg skrítin fullyrðing.

En allavega. Vonandi virkar þessi fyrsti heilsuáróður sem hvatning. Um leið og ég áttaði mig á snilldinni sem hollustan er leið mér eins og ég lægi ein á einhverjum fjársjóði. Og hún er alveg fjársjóður. Hún þarfnast bara dálítillar vinnu fyrst, sem verður fljótlega að vana og verðlaunin eru fáránleg vellíðan. Það er alls ekki slæmt.

Guðrún V.

Candida slagurinn

apríl 1, 2012 § Ein athugasemd

Mér hefur lengi ekki fundist ég vera týpan sem bloggar . Ekki síðan ég var 17 ára og hafði marga ljóðræna hluti að segja. Þá var bloggsíða fín til síns brúks. Í þetta skiptið er ástæðan sú að ég hef margar upplýsingar sem ég held að gætu verið öðrum til góðs. Og ég hefði gaman af því að aðrir nýttu sér.

Það er talað um að 75% vestrænna kvenna fái einhvern tímann sveppasýkingu. Það kemur mér ekki á óvart, þar sem í hvert sinn sem ég tala við stelpu eða konu um það sem ég er að gera þá eru viðbrögðin á þá leið að hún hafi sjálf fengið eða þekki einhverja sem hefur fengið sveppasýkingu, hvort svo sem það hafi verið í skamman tíma, eða þróast út í króníska sýkingu.

Viðbrögðin sem ég fæ frá karlmönnum þegar ég svara því heiðarlega hvers vegna ég drekki ekki, afþakki góðgæti sem mér er boðið eða borði svona óhóflega hollan mat, eru stundum svipuð en oftar kemur smá fát á þá. Sem er fyndið. Vegna þess að, ólíkt því sem sumir halda, er sveppasýking ekki kynsjúkdómur þó hún geti smitast við kynlíf og það ætti ekki að vera vandræðalegt að ræða hana vegna þess að hún er svo ótrúlega algeng.

Stundum er ég ekki einu sinni spurð. Ég segi frá þessu í óspurðum fréttum. Fólk sem umgengst mig mikið verður því að umbera það að hlusta á vangaveltur um mat, grænmetissafa, vítamín og ástandið mitt hverju sinni. Ég vil þess vegna nota þessi skrif hér til að þakka vinum mínum, fjölskyldu og samstarfsfólki fyrir að nenna að hlusta á heilsuþvaðrið í mér.

En allavega, sveppasýking. Hún er í rauninni bein afleiðing kæruleysis í okkur nautnaseggjum Vesturlanda. Kæruleysis og vanvirðingar við líkama okkar. Flest okkar fara nefnilega betur með hlutina okkar en okkur sjálf, sem er fáránlegt hvernig sem á það er litið vegna þess að við skiptum hlutunum okkar út hægri vinstri en sitjum föst með þennan blessaða kropp okkar þar til við deyjum.

Við hámum í okkur óhollan mat, förum að sofa um miðja nótt, höldum okkur gangandi á koffeini og sykri og drekkum mun meira magn áfengis á góðu fyllerí en ráðlagðan dagskammt af vatni. Málið er samt bara að hamborgarar og kaffi er gott. Sömuleiðis bjór. Og það er eitthvað svo gaman að vaka frameftir, þó maður sé ekki að gera neitt sérstakt.

Að lifa hratt og deyja fallega er viðhorf sem ég ber virðingu fyrir – og það eitt og sér er tilefni til pælingar á nýju wordskjali. En það sem ég vil meina í þessu sambandi hér er að gera það sem maður vill gera, óháð því hvort það er hollt fyrir mann eða ekki. Að leyfa sér og njóta þess.

Þegar líkaminn svo byrjar að mótmæla líferninu hægt og rólega er það fyrsta sem maður gerir ævinlega að stinga puttunum í eyrun og halda áfram uppteknum hætti. Vegna þess að það er auðvelt. Og maður hefur um nóg annað að hugsa yfirleitt.

Líkaminn veit samt alveg hvað er gott fyrir hann þó við reynum að venja hann við eitthvað annað. Í mínu tilfelli fór ég ekki að hlusta á hann fyrr en ég var komin með króníska sveppasýkingu og ómögulegt ónæmiskerfi, sem olli því að ég gat ekki mætt í vinnuna þegar ástandið var verst, eða gert nokkurn skapaðan hlut annan en að liggja bara og bölsótast yfir öllu saman, algjörlega fattlaus á að ég gæti sjálfri mér um kennt. Eftir nokkur ár af reglulegu bjórþambi, því að borða bara það sem var í ísskápnum þegar ég var svöng og sofa að meðaltali fimm klukkutíma á sólarhring leið mér orðið ekkert svakalega vel.    Svo ég fór á Google. Þar stóð ýmislegt sem mér fannst ekki skemmtilegt. T.d það að orsök sveppasýkingar sé fyrst og fremst það sem maður setur ofan í sig, þar í broddi fylkingar: hvítt hveiti, sykur, mjólkurvörur og áfengi. Eftir á að hyggja er þetta einungis rökrétt, en á þessum tíma voru þetta sjokkerandi upplýsingar. Ég ákvað að stinga puttunum bara aftur í eyrun. Þetta var of mikið bras.

Ótrúlegt en satt! Ekkert batnaði. Ég tók sterkustu lyfin sem hægt er að fá við sveppasýkingu, en hún sá við þeim og hélt áfram að lifa sínu notalega lífi í líkamanum mínum.Þá var ekkert annað eftir en að kveðja þetta líferni mitt og fara að kynna mér alls konar heilsusamlega hluti. Hluti sem ég hafði alltaf haft örlitla fordóma fyrir. Eða meira kannski eitthvert ergelsi yfir því að aðrir skyldu nenna þessu en ekki ég.

Núna eru liðnir u.þ.b fjórir mánuðir siðan ég byrjaði að taka á mínum málum og gjörbreyta matarræðinu. Fyrir utan tvo daga í Danmörku þar sem ég var með bjór í sjónlínu nær allan tímann og endaði á fylleríi (það er svo margt sem má gera, einhverra hluta vegna, þegar maður er ekki heima hjá sér) – þá hef ég ekki borðað hvítt hveiti, sykur, ger, mjólkurvörur, unnar eða gerjaðar matvörur né drukkið áfengi eða kaffi síðan um áramót.

Eðlilega gerist það ekki nema að kynna sér alls konar hluti fyrst, og lesa sér til. Gefa sér tíma til að melta allar þessar nýju upplýsingar og læra að nota þær.

Það er svo ótrúlega margt sem þarf að huga að þegar kemur að þessari lífstílsbreytingu og hún er alls ekki auðveld. En það er hægt að venjast svo mörgu. T.d því að vera heima og elda fyrir vikuna á laugardagskvöldi í staðinn fyrir að fara út á lífið eða að mæta með grænmeti í nesti í kökuboð. Það sem verra er, þá er líka hægt að venjast því að líða illa. Að taka sterk sýklalyf mánaðarlega til að bæla niður sýkingu sem kemur bara aftur seinna, að ná aldrei að sofa vel og að verða alltaf lasinn þegar flensan gengur yfir. Svona mætti halda endalaust áfram.

Ég geri mér grein fyrir því að viðfangsefni þessarar færslu er ekki spennandi fyrir alla. Enda er það alls ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að aðstoða þá sem eiga við þetta sama vandamál að etja en vita ekki hvernig eða hvar á að byrja. Líka, óháð sveppasýkingu, til þeirra sem hafa einfaldlega áhuga á hollara líferni og/eða að grennast. Því það er ekki nauðsynlegt að vera veikur til að fræðast um hollustu, þó það hafi þurft fyrir mig.

Ég hafði hugsað mér að setja hérna inn færslur um alls konar hluti, uppskriftir sem ég hef sankað að mér, upplýsingar um samsetningu máltíða, safakúra, ráðlegt svefmynstur og alls konar. Og reyna að einhverju leyti að vera til staðar ef fólk missir móðinn, þó það sé ekki nema í formi vikulegrar bloggfærslu. Af því ég veit það sjálf að það munar svo miklu að vita af fólki í kringum mann sem er að gera svipaða hluti.

Nú er ég samt enginn snillingur í þessu fagi. Það er ótrúlega margt sem ég veit ekki og kann ekki. En ef það er áhugi til staðar hjá einhverjum, ykkur facebook vinum mínum og fleirum, þá held ég glöð áfram með þessa síðu hér.

Og svo ég gleymi ekki að nefna það, þá hefur þessi breyting gert það að verkum að mér líður betur í líkamanum en nokkurn tímann áður. Komandi frá algjörum nautnasegg hlýtur það að segja eitthvað til um hvað það er sniðugt að vera heilsusamlegur.

Guðrún V.